Hundasýning

Alþjóðleg sýning HRFÍ 28. febrúar
Hríma, Jökla, Valkyrja og Þrymur voru sýnd á alþjóðlegri hundasýningu HRFÍ 28. febrúar. Ár var síðan Hríma hlaut titilinn Best In Show og því var kominn tími til að skila stóra flotta bikarnum, bikarahillurnar tæmdust því örlítið þessa helgina.

Sýningin var haldin í gamla húsnæði Sports Direct á Smáratorgi, en óhætt er að segja að þröngt hafi verið um manninn og sýningarhringirnir litlir. Dómarinn var lítið hrifinn af Valkyrju hundunum í þetta skipti, en Jökla var í þriðja sæti í opnum flokki og Valkyrja í því fjórða. Þrymur var í fjórða sæti í opnum flokki og ekkert þeirra fékk meistaraefni til að halda áfram að keppa um besta rakka og tík tegundar. Reyndar voru ansi fáir sem hlutu meistaraefni í husky hringnum. Hríma var ein sýnd í meistaraflokki og fékk hún meistaraefni til að keppa um bestu tík tegundar en hlaut ekki náð dómarans og ekkert sæti í boði fyrir drottninguna þar. Þetta mun vera í fyrsta skipti í óra langan tíma sem ekkert af okkar hundum kemst í sæti um bestu rakka og tík á sýningu. En það þýðir lítið að deila við dómarann um svona, sitt sýnist hverjum. Það kemur önnur sýning á eftir þessari. Það verður fjör á þeirri næstu því þá verða litlu svörtu hvolpagormarnir líka sýndir.