Mót í Kjarnaskógi

Icehusky keppnin 2016

Valkyrjuliðið, Rósa, Orri, Olga og Halli ásamt hundum, skelltu sér norður síðastliðna helgi og tóku þátt í sleðahundakeppni Icehusky að Hömrum í Kjarnaskógi. Óhætt er að segja að Akureyri hafi verið á kafi í snjó, enda búið að kyngja niður snjónum vikuna fyrir keppni. Vegna veðurs var keppnin færð til og bæði gönguskíðakeppnin og sleðakeppnin haldin á laugardeginum 6. febrúar, svo allir þátttakendur kæmust á keppnina.

Við vorum með bústað á leigu í Kjarnaskógi og höfðum það notalegt fyrir og eftir keppnina.
Við kepptum með tvö lið í sleðakeppninni, annars vegar keppti Olga með 4 hunda í 4-5 hunda keppninni sem var 10 km löng og hins vegar keppti Orri með 3 hunda í 2-3 hunda keppninni sem var 10 km löng. Svo fór að Olga sigraði sinn flokk með 4 hunda á tímanum 45.02 og Orri landaði 3. sætinu í sínum flokk eftir harða baráttu, á tímanum 1.01.03.

10 km brautin var virkilega þung en afskaplega skemmtileg að sama skapi. Það jafnast fátt á við það að bruna niður brekkur milli trjánna og vonast til þess að það verði ekki kanína á vegi manns.

Allir hundarnir stóðu sig afskaplega vel en þetta var fyrsta sleðakeppni Krapa, Heljar og Gnár, en þau urðu eins árs sex dögum fyrir keppnina.

Í gönguskíðunum var Valkyrjuræktun einnig með tvö lið í keppninni. Annars vegar keppti Olga í 3. km gönguskíðakeppninni með Krapa og Jöklu og hins vegar keppti Halli í 2. km keppninni með Hel og Hrímu. Olga sigraði sinn flokk á tímanum 10:20 og Halli landaði 3. sætinu í sínum flokki á tímanum 12:15.

Valkyrjuliðið hélt því heim á leið með tvo sigra og tvenn verðlaun fyrir þriðja sætið eftir helgina. Virkilega góður árangur með okkar 7 hunda lið.

Við þökkum árangrinum að sjálfsögðu þrotlausum æfingum en einnig góðu fóðri. Fyrir keppnina höfum við verið að gefa hundunum okkar Royal Canin sporting life, endurance 4800, sem sérstaklega er ætlað fyrir sleðakeppnir, skijöring og bikejöring. Það er orkuríkt og gott fyrir hunda í mikilli þjálfun.

Við erum  virkilega ánægð með að byrja árið 2016 svona vel með Hrímu, Rökkvu, Jöklu, Þrym, Krapa, Hel og Gná.